AÐRAR VÖRUR
Fróðleikur

Gárubragðið - Að "hitcha"

Að fá fisk til að taka gárutúpu eða flugu með gárubragði er toppurinn í laxveiðinni.  Það vita þeir sem reynt hafa.  Veiðimaðurinn sér tökuna og gjarnan aðdragandann.

Í fyrsta sinn sem sá er þessar línur skrifa fékk fisk á gáru kom hann eins og tundurskeyti, með bakið upp úr vatninu að minnsta kosti 10 metra leið, réðist á hana en hitti ekki.  Skjálfandi í hnjánum kastaði ég aftur og aftur kom hann, réðist nú á fluguna neðan frá og negldi sig á hana.  Þetta var í Brennunni í Borgarfirði og flugan var lítil straumfluga með gárubragði.

Þegar veitt er með gárutúpu notum við að sjálfsögðu flotlínu því við erum jú að veiða í yfirborðinu.  Það er í lagi og jafnvel betra að nota styttri taum í gáruveiði en þegar við veiðum með hefðbundnum flugum á flotlínu.  Betra er að nota tiltölulega stífan taum og ekki er verra að vera að nota Seaguar fluorocarbon efni því það sekkur örlítið undir vatnsfilmuna.

Best er að nota létta króka eins og VMC í stærðum 14 og 16 en Kamasan krókurinn í stærð 14 sem er mun sterkari en VMC gengur einnig nema þá í minnstu gárutúpur. 
Ef þú notar tvíkrækjur í gárutúpuna snúðu henni þá "öfugt" þannig að krókarnir snúi upp.  Oftar en ekki veltir laxinn sér ofan á túpuna og festist þá frekar þegar tvíkrækjunni er snúið upp. 

Það er betra að "hitcha" með lengri stöng en styttri.  Ég mæli með 10 feta stöng eða lengri.  Ástæðan er sú að auðveldara er að stýra gárutúpunni eða flugunni með lengri stöng en styttri.

Ólíkt hefðbundnari veiði þar sem veiðimaður leggur stöngina niður er henni haldið hátt þegar veitt er með gárubragði.  Aðeins fremsti hluti flotlínunnar liggur á vatnsyfirborðinu.  Straumurinn ræður því hvort það þurfi að draga fluguna og þá hve hratt.  Stundum er straumur það þungur að það dugar að halda stönginni uppi til þess að túpan eða flugan skauti rétt á vatnsyfirborðinu en ef veitt er í kyrru vatni þarf að draga línuna inn svo gárutúpan eða flugan sökkvi ekki.

Mikilvægt er að gárað sé á réttum hraða.  Passlega hratt svo túpan fljóti en ekki of hratt því þá myndar hún loftbólur eða friss og það gengur ekki.

Lykil atriði þegar veitt er með gárubragði er að bregða alls ekki við fiski.  Ég minnist þess að ég sagði einu sinni flinkum sænskum silungsveiðimanni til í Norðurá.  Sá var hokinn reynslu af silungsveiði en þetta var í fyrsta sinn sem hann kastaði fyrir lax.  Svíinn var yfir sig spenntur þegar hver laxinn á fætur öðrum réðist á fluguna og dró út úr tug fiska áður en ég truflaði hann í einni tökunni svo hann gleymdi sér og 6 punda maríulaxinn hans negldi sig á Hauginn hans Sigga Héðins.

Þegar vett er með gárubragði er frekar veitt tiltölulega nálægt og því þarft ekki löng köst.  Skotlínur með sverum haus eru þá ekki hentugustu línurnar í gáruveiðina.  Skotlínur með nettari haus á borð við HMT línuna frá Scierra henta betur.

 

Þessi mynd sem sýnir vel hvernig gárutúpan vinnur er fengin að láni úr mynd Henrik Mortensen, "Cracking the Code".

www.flugan.is - Netverslun fluguveiðimannsins - flugan@flugan.is